Verkefnið Samvinnurými á Skagaströnd hlýtur 15 milljón króna styrk

Samningur undirritaður af Katrínu M. Guðjónsdóttur framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna og Ólafi Þó…
Samningur undirritaður af Katrínu M. Guðjónsdóttur framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna og Ólafi Þór Ólafssyni starfandi sveitarstjóra Sveitarfélagsins Skagastrandar

SSNV og sveitarfélagið Skagaströnd hafa undirritað samning vegna styrks til að skapa samvinnurými á Skagaströnd. Markmið með verkefninu er að skapa samvinnurými á Skagaströnd með því að standsetja og markaðssetja húsnæði í eigu sveitarfélagsins, skapa forsendur fyrir léttan iðnað í hluta hússins og aðstöðu fyrir frumkvöðla og minni fyrirtæki í öðrum hluta þess. Húsið sem um ræðir var áður fiskvinnsluhús, síðast rækjuvinnsla. Nú þegar hafa aðilar sýnt aðstöðunni áhuga til framleiðslu á fullbúnum timburhúsum til flutnings
Mun styrkurinn því vonandi verða til þess að störf skapast á Skagaströnd á næstu misserum og húsnæðið fái nýtt hlutverk.

Innviðaráðherra auglýsti eftir umsóknum um framlög sem veitt eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar vegna verkefna sem tengjast aðgerð C1 eða sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða. Styrkjunum er ætlað að efla byggðir landsins og var úthlutað til sjö landshlutasamtaka sveitarfélaga.

Sigurður Ingi Jóhannsson þáverandi innviðaráðherra úthlutaði styrkjum til 10 verkefna á landsbyggðinni að upphæð 130 milljónum króna.
SSNV sótti um fyrir hönd sveitarfélaga í landshlutanum og hlaut Norðurland vestra 40 milljónir króna í styrk til þriggja verkefna í landshlutanum, FabLab smiðja og aðstaða til nýsköpunar og þróunar í Húnaþingi vestra, samvinnurými á Skagaströnd og tilraunagróðurhús í Húnabyggð.